154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:13]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum í gær og í dag rætt fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029. Ég þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fyrir sína yfirferð hér í dag. Það getur vissulega verið talsverð áskorun að halda jafnvægi milli aðhalds og uppbyggingar. Þessi ríkisstjórn hefur forgangsraðað í þágu velferðar, uppbyggingar og efnahagslegs stöðugleika með það að leiðarljósi að draga úr spennu í efnahagslífinu, ná niður verðbólgu og skapa forsendur fyrir vaxtalækkun.

Menningin er súrefnið í æðakerfi samfélaga og því er gríðarlega mikilvægt að standa vörð um og styðja við menningu, ekki síst þegar áskoranir eru í efnahagslífinu. Með sérstöku menningarráðuneyti, sem við í Vinstri grænum lögðum áherslu á í aðdraganda myndunar síðustu ríkisstjórnar, er ljóst að menningin fær það mikilvæga súrefni sem hún þarf. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur m.a. fram að áfram skuli unnið að þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu með það að markmiði að setja á laggirnar þjóðaróperu. Nú hefur hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra lagt fram frumvarp um stofnun þjóðaróperu og fagna ég því og óska ráðherra til hamingju með þetta skref.

Í greinargerð segir, með leyfi forseta:

„Drög að sviðslistastefnu eru í vinnslu og lagt hefur verið fram frumvarp um stofnun Þjóðaróperu innan Þjóðleikhússins. Gert er ráð fyrir að þar sé stigið fyrsta skrefið í átt að auknum samrekstri sviðslistastofnana ríkisins en bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu kveður á um nefnd er skuli kanna slíkt fyrirkomulag.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað hún geri ráð fyrir miklum framlögum á ári til þjóðaróperu og hvort tryggt sé að samrekstur sviðslistastofnana muni efla allar listgreinar sem falla þar undir.